þriðjudagur, 27. september 2011

Skúffufólkið



Stundum er sagt að maður deyi tvisvar.
Fyrst þegar hjartað hættir að slá og svo aftur þegar enginn þekkir mann lengur á ljósmynd.

Það er skúffa í antíkversluninni Fríðu frænku sem er full af gömlum ljósmyndum. Myndum af fólki sem hefur orðið viðskila við samhengi sitt. Dottið út úr fjölskyldualbúmunum og einhverra hluta vegna endað nafnlaust ofan í þessari skúffu þar sem fólk getur gramsað og keypt það.

Ég fer stundum þangað og freistast yfirleitt til þess að taka eitthvað af þessu fólki með mér heim.

Það gerðist síðast í gær. Þá bjargaði ég konu á peysufötum með litla stúlku í fanginu, ungum myndarlegum manni, þremur fallegum og spariklæddum litlum stelpum, fimm herramönnum á stuttbuxum í fjallgöngu, tveimur litlum stuttklipptum telpum, hressum hóp fólks í ferðafötum sem hefur stillt sér upp í tré fyrir ljósmyndarann og
tveimur stúlkum í peysufötum (sem ég hef ákveðið að séu systur en veit annars ekkert um annað en að þær hafa rambað inn á ljósmyndastofu G. Aug. Guðmundssonar á Ísafirði einhverntímann).

Við tökum myndir til þess að muna, festa fólk, atburði og staði í minni og forða því þannig frá gleymsku og dauða.
En hvað gerist þegar enginn man lengur?


1 ummæli: